Frétt vegna Metabolic-leikanna 2015

Gleði og keppnisskap ríkjandi á Metabolic-leikunum 2015

Sjá myndir frá leikunum

Dagný og Hjörtur sigurvegarar í parakeppni

Laugardaginn 14. Nóvember hittust yfir 100 Metabolic iðkendur af landinu öllu á Selfossi og kepptu í líkamlegu hreysti. Sett var upp keppnisbraut með 8 æfingum sem eru dæmigerðar fyrir þær hreyfingar sem eru í Metabolic æfingakerfinu. Metabolic æfingakerfið hefur verið kennt í Þreksport á Sauðárkróki um allnokkurt skeið undir handleiðslu þjálfaranna Guðrúnar Helgu og Friðriks, og nýtur mikilla vinsælda.

Mikil stemming var í íþróttahúsinu við Vallaskóla þar sem keppnin fór fram og voru áhorfendur duglegir að hvetja sitt fólk áfram í krefjandi keppnisbrautinni. Farið var í gegnum einstaklings-, para- og liðakeppni með 4 í hverju liði, og voru veitt verðlaun í öllum flokkum. Keppendur voru hvattir til að vera í búningum á meðan á keppni stóð og því mátti sjá allskyns fígúrur og þekktar persónur á keppnisgólfinu. Ánægjulegt var að sjá hversu mikil samstaða og liðsheild einkenndi hópana og gleðin var allsráðandi í bland við keppnisskapið. Gleðin var ríkjandi frameftir kvöldi þar sem hóparnir sameinuðust í mat og kvöldskemmtun í félagsheimilinu Hlíðskjálf.

Frá Þreksport á Sauðárkróki mættu til leiks 4 lið og þá var eitt par sem tók þátt í parakeppni. Með í för voru einnig dyggir stuðningsmenn ásamt þjálfurum sem hvöttu sitt fólk til dáða.

 

 

Skagfirðingarnir Dagný Gunnarsdóttir og Hjörtur Elefsen gerðu sér lítið fyrir og fóru með sigur af hólmi í parakeppninni og enduðu í 1. sæti af 14 pörum sem tóku þátt.

Liðið Team Joe frá Spörtu í Kópavogi fékk stærstu verðlaun dagsins með sigri í liðakeppni og vörðu þar með titilinn frá síðustu keppni. Ölver Jónsson frá Selfossi sigraði í einstaklingskeppni karla. Í kvennaflokki sigraði Laufey Karlsdóttir úr Spörtu í Kópavogi. Allir sigurvegarar voru leystir út með veglegum verðlaunum, ásamt því sem sigurliðið Team Joe fær að halda farandbikar fyrir liðakeppni fram að næstu Metabolicleikum sem stefnt er á að fari fram á Sauðárkróki á næsta ári.